Skip to content

Aukin hólfun í Réttó

Nú höfum við hólfað enn frekar niður í skólanum. Nemendur í 8. og 10. bekkjum fara í matar- og kaffitíma út í íþróttahús með tjaldið niðri, 9. bekkur er í matsalnum. Alger hólfun árganga í kaffi- og mat. Salernin eru merkt árgöngum og sameignlegir snertifletir stofa sótthreinsaðir á milli hópa.

Nánast allir starfsmenn nota grímur og stór hluti nemenda. Eins og staðan er núna þá viljum við biðja ykkur um að útvega krökkunum ykkar grímur (þeir sem ætla að nota grímur, grímur eru ekki skylda). Ef notkunin er rétt og mikil þá myndast nokkurskonar hjarðvörn í samfélaginu okkar, sem er gott, þar sem erfitt er að virða fjarlægðarmörk í kennslustundum. Loftræsting er í mjög góðum málum hjá okkur þar sem við notum kröftugar viftur, opnum hurðir og glugga til að hreyfa við loftinu. Allar þessar aðgerðir minnka verulega líkur á útsetningu skólasamfélagsins fyrir smiti og auka líkur á að skólastarf geti haldist óraskað sem lengst.

Með þessari viðbót eru árgangarnir enn meira hólfaðir þar sem við höfum tekið út veikasta hlekkinn sem var kaffi- og mataraðstaða nemenda. Kaffitíminn gekk vel í morgun sem og maturinn núna. Gerum ráð fyrir að það haldist áfram fram að vetrarleyfi.

Þessar ráðstafanir hafa kallað á mikla samvinnu allra í skólasamfélaginu og þar standið þið foreldrar ykkur vel. Hvetjum ykkur til að fara yfir persónulegar sóttvarnir og rétta grímunotkun heima fyrir.

Þar sem búið er að hólfa í kaffi- og matartímum munum við biðja nemendur að sitja á svipuðum stað á meðan borðað er. Við munum taka myndir af sætaskipan hvert kaffi og hvern matartíma til að hjálpa til við rakningu ef smit kemur upp í skólanum.

Þetta er samvinnuverkefni okkar allra og hvert og eitt okkar er tannhjól í þessu gangverki sem Réttó er. Áfram við.

Kveðja skólastjórnendur