Skip to content

Samstarf foreldra og skóla

Foreldrasamstarf

Rannsóknir benda til þess að þegar foreldrar taka þátt í skólastarfi sé frammistaða nemenda betri, sjálfstraust meira og viðhorf nemendanna jákvæðara. Fjarvistir og brottfall úr skólum er minna, kennarar ánægðari, foreldrar skilningsríkari og andrúmsloftið í bekknum jákvæðara.

Markmið með foreldrasamstarfi er að fá upplýsingar um framfarir barnsins, vinnu þess og vandamál. Foreldrar hitta kennarana og geta skipst á upplýsingum um nám og líðan barnsins. Með samstarfi finnur skólinn að foreldunum er umhugað um menntun barnsins og barnið að foreldrarnir hafa áhuga á starfi þess.

Markmið skóla með foreldrasamstarfi er að upplýsa foreldra um framfarir barnsins og heyra hvort væntingar þeirra séu uppfylltar. Með samstarfi fær skólinn vitneskju um barnið frá sjónarhóli foreldranna. Hann getur útskýrt ákvarðanir skólans sem snerta einstaka nemendur og hjálpað foreldrum að finna leiðir til að aðstoða börn sín.

Foreldrafélög og skólaráð

1. Skólaráð. Grunnskólalög kveða á um að í öllum skólum skuli vera skólaráð. Í því sitja fulltrúar nemenda, foreldra og starfsmanna auk skólastjóra. Ráðið fjallar um og gefur umsögn til skólans og skólanefndar um skólanámskrá og starfsáætlun.

2. Foreldrafélög. Starfsfólki skóla er skylt að efla samstarf skóla og heimila með fræðslu og upplýsingum til foreldra. Foreldrar geta stofnað foreldrafélög. Hlutverk þeirra eru að styðja skólastarfið, efla tengsl foreldra við skólana og standa fyrir félagslífi.

Samtök Foreldra
Foreldrar hafa stofnað foreldrafélög í öllum grunnskólum borgarinnar. Foreldrafélögin og foreldraráð í borginni hafa einnig myndað samtökin, SAMFOK, og til eru heildarsamtök foreldra í landinu HEIMILI og SKÓLI.

1. Samfok, er Samband foreldrafélaga og foreldraráða í skólum Reykjavíkur á grunnskólastigi. Markmið SAMFOK er að standa vörð um réttindi barna til menntunar og þroska, að beita sér fyrir auknum áhrifum foreldra á skólastarf og að vera sameiginlegur málsvari foreldra gagnvart stjórnvöldum. Sími Samfok er 562 7720.
Netfang: samfok[at]samfok.is.Vefsíða: www.samfok.is

2. Heimili og skóli eru heildarsamtök foreldra á öllu landinu. Tilgangur samtakanna er að stuðla að bættum uppeldis- og menntunarskilyrðum barna og unglinga. Áhersla er á að veita foreldrum og félagsmönnum liðveislu og miðla upplýsingum, en jafnfram að koma sjónarmiðum foreldra á framfæri við yfirvöld. Sími 562 7475.
Vefsíða: www.heimiliogskoli.is