Skip to content

Foreldrar!

Munið að gildandi reglur um útivistartíma barna okkar eru settar með heill
barnanna í huga. Að vetrarlagi er börnunum heimilt að vera úti til kl.
22.00, sami tími alla daga, líka um helgar.

Það er mikilvægt að halda útivistarreglur. Vissulega reyna mörg börn að
komast eins langt og þau geta og fá að vera lengur úti en lög heimila. Rök
þeirra eru gjarnan að allir hinir megi vera úti. Ef foreldrar koma sér
saman um að halda ákveðnar reglur, veitist þeim mun auðveldara að fylgja
þeim eftir – allir vita þá hvaða reglur eru í gildi.
Kannanir hafa sýnt að um 90% foreldra segjast virða útivistartíma barna og
unglinga.

Við vitum að myrkrið skapar hættur fyrir börnin og tækifæri fyrir þá sem
hafa myrkraverk í huga. Útivistarreglur eru settar af yfirvöldum, þeim er
skylt að fylgja. Reglurnar eru settar í þeim tilgangi að skapa börnunum
öryggi. Að mati sérfræðinga skiptir útivistartími miklu máli í forvörnum.
Því lengur sem unglingar eru á róli fram eftir kvöldi þeim mun líklegra er
að þeir verði fyrir óæskilegu áreiti og þrýstingi t.d. varðandi áfengi og
önnur efni.

Ekki þarf annað en að skoða á hvaða tímum sólarhrings börn byrja að fikta
með áfengi og aðra vímugjafa og hvenær alvarlegar líkamsárásir og óæskileg
kynlífsreynsla á sér stað, til að skilja að útivistarreglur eru ekki settar
fram af neinni tilviljun.

Eins og áður er sagt þá hefur hið gamalkunna viðkvæði “allir hinir mega það”
auðveldað mörgum börnum að fá sínu framgengt t.d. varðandi útivistartíma. –
Könnum ófeimin hvað hin börnin mega. Hringjum heim til vina barna okkar og
ræðum við foreldra þeirra. Berum saman bækur okkar og komumst að því
hvernig málum háttar í raun.