Skip to content

Kennsluhættir

Réttarholtsskóli er unglingaskóli fyrir nemendur í 8.-10. bekk. Flestir nemendur koma úr Breiðagerðisskóla og Fossvogsskóla.

Við skipulag náms og kennslu er fjölbreytni höfð að leiðarljósi. Leitast er við

  • að skipuleggja nám og kennslu þannig að þess sé gætt að örva skilning, rökhugsun og sköpunargáfu nemenda
  • að námið í skólanum taki mið af fyrri þekkingu nemenda og tengist reynsluheimi þeirra
  • að gefa nemendum kost á vali um námsgreinar og viðfangsefni
  • að beita fjölbreytilegum kennsluaðferðum og stuðla að því að nemendur geti nýtt sér sterkar hliðar sínar og/eða eflt veikar hliðar, jafnframt því sem þeim gefst tækifæri til samvinnu við aðra nemendur
  • að tryggja að verkefni höfði jöfnum höndum til pilta og stúlkna
  • að sjá nemendum fyrir námsefni við hæfi
  • að beita margvíslegum aðferðum við námsmat til að tryggja að nemendur geti komið þekkingu sinni á framfæri á þann hátt sem hentar þeim
  • að jafnframt mati kennara á námsárangri nemenda meti nemendur sjálfir frammistöðu sína og verklag í því skyni að auðvelda þeim að vera virkir og ábyrgir í þekkingarleit sinni
  • að nýta upplýsingatækni í öllum námsgreinum.

8. bekkur
Þegar nemendum í 8. bekk skólans er skipað í bekki er þess gætt að blanda saman nemendum úr ólíkum skólum. Vinir (2-3) geta sent skólastjóra óskir um að fá að vera saman í bekk. Reynt er að verða við slíkum óskum svo sem kostur er. Alla jafna fylgja umsjónarkennarar 8. bekkja nemendum sínum alveg upp í 10. bekk. Umsjónarkennari hefur sérstakan umsjónartíma með bekknum til að efla bekkjaranda og fjalla um ýmis mál er tengjast bekknum og samvinnu nemenda.
Í 8. bekk er lögð áhersla á að kenna nemendum vinnubrögð og góða námstækni.

Námshópar í 9. og 10. bekk
Allt frá 1986 hefur Réttarholtsskóli haft þann hátt á að bjóða nemendum upp á mismunandi námshópa í íslensku, dönsku, ensku og stærðfræði. Markmiðið með þessu er að veita nemendum kennslu við hæfi þannig að nemendur sem eru á svipuðu stigi í hverri grein séu saman í hópi. Kennarar velja þá námsefni og kennsluaðferðir sem henta best hverjum hópi. Hóparnir eru þrenns konar:

Hópur 1 er fyrir nemendur sem eru illa staddir í námsgreininni. Þeir hafa ekki náð tökum á nema hluta markmiða hennar, eru gjarnan með einkunnir undir 5. Í hópi 1 eru nemendur færri, helst 12-15 svo hægt sé betur að sinna þörfum hvers og eins. Áhersla er lögð á grundvallaratriði og kennslan miðuð við stöðu nemendanna í greininni. Áhersla er lögð á að nemendur nái góðum tökum á undirstöðunni og fái sjálfstraust varðandi nám í greininni.

Hópur 2 er fyrir nemendur sem hafa náð nokkuð góðum tökum á námsgreininni.

Hópur 3 er fyrir nemendur sem hafa náð mjög góðum tökum á námsgreininni og eru tilbúnir til að bæta við sig verkefnum til að ná enn betri tökum á náminu.

Nemendur velja sig í hópa í þessum greinum. Reynt er að verða við þeim óskum eftir því sem kostur er.
Lokapróf eru hin sömu í öllum hópum en í hópi 1 í stærðfræði gefst nemendum einnig kostur á að taka próf sem er sérstaklega miðað við kennsluna í hópnum.