Skip to content

Námsmat

Nemendur og foreldrar þeirra fá umsagnir um stöðu í námi í lok október í samtali umsjónarkennara, nemenda og foreldra á foreldradegi. Einnig geta nemendur metið eigin frammistöðu í samtalinu.

Nýr einkunnakvarði

Vorið 2016 útskrifuðust nemendur 10. bekkjar í fyrsta sinn eftir nýjum matskvarða aðalnámskrár grunnskóla. Þann matskvarða er skólum skylt að nota við brautskráningu nemenda úr 10. bekk frá og með vorinu 2016. Haustið 2017 eru nemendur í 8. og 9. bekk einnig metnir út frá sama matskvarða en að baki honum liggja þynnt hæfniviðmið. Af þessu leiðir að B í 8. bekk er ekki sambærilegt B í 9. bekk. Í námsskránni eru skilgreind ákveðin matsviðmið í lok hvers greinakafla. Þau eru lýsing á hversu vel nemandi hefur skilgreinda hæfni á valdi sínu. Notaður er kvarðinn A,B,C,D, þar sem A lýsir framúrskarandi hæfni, B lýsir góðri hæfni, C sæmilegri hæfni og D hæfni sem nær ekki viðmiðum sem lýst er í C. Bætt hefur verið við kvarðann B+ og C+ sem getur nýst þegar nemendur hafa náð að hluta þeim viðmiðum sem lýst er í aðalnámskránni. Ekki verða útbúin sérstök matsviðmið fyrir þessa viðbót heldur gildir það að sá sem hefur náð meginþorra B matsviðmiða og náð einstökum þáttum í A getur fengið B+ og sá sem hefur náð meginþorra C matsviðmiða og einstökum þáttum í B getur fengið C+. Á vef Menntamálastofnunar um fyrirkomulag á nýju námsmati kemur skýrt fram að A þýðir ekki að nemandi hafi getað t.d. 85% af verkefninu eða prófinu heldur að hann hafi getað leyst þau verkefni eða prófhluta sem kölluðu á flóknari hæfni en hin eða hann hafi skilaði framúrskarandi úrlausnum.

Meginviðmið Réttarholtsskóla

Í Réttarholtsskóla er leitast við að hafa leiðsegjandi námsmat (leiðsagnarmat) sem metur fjölbreytta hæfni nemenda. Nemendur og foreldrar eiga að fá skýrar upplýsingar um það sem nemendur kunna eða geta þar sem er lögð áhersla á að þeir fái tilfinningu fyrir því sem hefur áunnist og hvert næsta skref í náminu ætti að vera. Í kennsluáætlunum kemur fram hvaða hæfniviðmið liggja til grundvallar í hverri námsgrein og nám, kennsla og námsmat eiga að haldast í hendur.

Hæfniviðmið og matsviðmið aðalnámskrár í hverri grein fyrir sig eru sá grundvöllur sem kennsluhættir og námsmat byggjast á. Í Réttarholtsskóla er lögð áhersla á hæfnimiðaða kennsluhætti með fjölbreyttum hætti. Með verkefnum og prófum liggur ljóst fyrir hvaða hæfniviðmið er verið að meta og hvaða matskvarði liggur til grundvallar matinu. Niðurstöður einstakra verkefna og prófa eru birtar inni á Mentor ásamt tilteknum hæfniviðmiðum sem unnið er með. Við skil á verkefnum og prófum fylgir leiðbeining ýmist í formi samtals eða umsagnar.

• Hæfniviðmið úr námskrá tilgreind á verkefnum/mati

•Texti matsviðmiða úr námskrá er notaður þegar hæfni nemenda við lok grunnskóla er metin

• Hæfni sem nemandinn býr yfir við lok grunnskóla birtist á útskriftarskírteini

• Til að styðja við nemandann gefa kennarar markvissa endurgjöf með kvarðanum hér til hægri. Þegar nemandi nær þeirri hæfni sem stefnt er að fær hann vitnisburðinn Hæfni náð . Í sumum tilfellum er mögulegt að hæfni nemandans fari fram úr hæfnilýsingum, verði Framúrskarandi

• Gefið í bókstöfum við lokamat – A, B, C og D.

• Gefið er B+ og C + þegar lokaeinkunn er sett saman enda hafa nemendur náð að hluta þeim viðmiðum sem lýst er í námskránni. Ekki er til lýsandi texti fyrir B+ og C+ og því eru B+ og C+ ekki notuð í fyrirgjöf fyrir einstök verkefni

• Verkefni/mat eru leiðsegjandi

• Leiðsegjandi samtal/texti fer á milli nemenda og kennara við skil verkefna

• Niðurstöður einstakra verkefna/mats eru birtar á Mentor ásamt þeim hæfniviðmiðum sem unnið er með

• Í valgreinum verður hægt að gefa lokið/ólokið

• Við lok grunnskóla fara kennarar í hverri grein yfir hvar nemandinn er staddur í náminu og notar til þess yfirlit verkefna vetrarins. Hann mátar yfirlitið við matsviðmiðin í lok hvers greinakafla og gefur nemandanum bókstaf út frá þeim