Skip to content

Áætlun um varnir gegn einelti 

Það er einelti þegar einn eða fleiri beita einstakling endurteknu líkamlegu eða andlegu ofbeldi eða félagslegri útskúfun.
Sagt er að nemandi sé lagður í einelti þegar annar nemandi eða nemendur

 • segja meiðandi og óþægileg orð við hann eða hana, gera grín að honum/henni eða nota ljót og meiðandi uppnefni
 • virða hann/hana ekki viðlits eða útiloka hann/hana viljandi úr vinahópnum
 • slá, sparka, hárreita, hrinda eða loka hann/hana inni eða úti
 • segja ósatt eða dreifa upplognum rógi um hann/hana eða senda kvikindislega miða, tölvupóst eða sms skilaboð, í þeim tilgangi að reyna að fá aðra nemendur til að kunna illa við hann/hana

Sé um einelti að ræða gerist þetta oft og mörgum sinnum, og sá sem verður fyrir
því á erfitt með að verja sig.
Ef nemanda er strítt aftur og aftur á óþægilegan og meiðandi hátt er það líka einelti.
En það er ekki einelti þegar einhverjum er strítt á góðlátlegan og vingjarnlegan hátt. Það er heldur ekki einelti þegar um það bil jafnsterkir nemendur (jafningjar) slást eða rífast.

Réttarholtsskóli ætlast til þess að nemendur fylgi eftirfarandi reglum:

 • Við leggjum ekki aðra í einelti.
 • Við reynum að aðstoða þá nemendur sem verða fyrir einelti.
 • Við eigum líka að vera með nemendum sem auðveldlega verða einir.
 • Ef við vitum til að einhver er lagður í einelti eigum við að segja umsjónarkennaranum (eða öðrum starfsmanni í skólanum) frá því og líka fólkinu heima.

Réttarholtsskóli er þátttakandi í Olweusarverkefninu gegn einelti, sem er samstarfsverkefni menntamálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands og Heimilis og skóla. Verkefnið byggir á kenningum prófessors Dan Olweus, sem rannsakað hefur einelti s.l. 30 ár og er einna fremstur fræðimanna í heiminum á því sviði.
Olweusaráætlunin byggist á fremur fáum meginreglum sem miða að því að  endurbæta félagslegt umhverfi í skólanum og að skapa skólaumhverfi (og helst líka umhverfi heima fyrir) sem einkennist a

 • hlýlegum og jákvæðum áhuga og alúð hinna fullorðnu,
 • ákveðnum römmum vegna óviðunandi atferlis
 • stefnufastri beitingu neikvæðra afleiðinga (viðurlaga) sem hvorki eru líkamlegar né óvinveittar, brjóti nemandi gegn þeim reglum sem ákveðnar hafa verið
 • fullorðnum í skóla (og á heimili) sem virka sem yfirboðarar við vissar aðstæður

Helstu markmið aðgerðaáætlunarinnar eru að draga úr tækifærum til eineltis og byggja upp afstöðu gegn einelti.
Helstu þættir sem unnið er að með skipulögðum hætti eru:

 • Lagðar eru fyrir kannanir á einelti og niðurstöður kynntar.
 • Allir starfsmenn skólans taka þátt í umræðuhópum sem hafa það að markmiði að fræða starfsfólk um einelti og undirbúa það undir að vinna markvisst gegn því. Í þessu sambandi fer fram mikill lestur og umræður.
 • Nemendur fá fræðslu um einelti, eðli eineltis, birtingarform þess og afleiðingar fyrir gerendur og þolendur. Í þessu sambandi verður nemendum m.a. sýnt myndband.
 • Eftirlit innan skólans er skilvirkt og lögð er áhersla á vitundarvakningu meðal starfsfólks, nemenda og foreldra
 • Reglur skólans um einelti eru kynntar fyrir nemendum og ræddar.
 • Haldnir eru bekkjarfundir um samskipti og skólabrag.
 • Haldnir eru kynningar- og umræðufundir fyrir foreldra.
 • Tekið er á þeim eineltismálum sem upp koma með skipulögðum hætti með samtölum við gerendur, þolendur og foreldra.

Foreldrar eru beðnir um að vera með augu og eyru opin og láta skólann vita ef þeir verða þess varir að barni þeirra er strítt eða það stríðir öðrum og jafnframt hafa samband við skólann ef barninu líður illa í skólanum.

Viðbrögð við einelti:

 • Allir starfsmenn skólans fylgjast með samskiptum og líðan nemenda í kennslustundum, í frímínútum og annars staðar þar sem nemendur koma saman í nafni skólans.
 • Starfsmenn hafa fengið þjálfun í að greina slæm samskipti og bregðast við þeim þegar þau koma upp.
 • Öllum málum er síðan vísað til umsjónarkennara sem tekur skipulega á eineltismálum í samstarfi við aðra starfsmenn skólans.
 • Umsjónarkennari kannar málið hjá nemendum, starfsfólki og foreldrum. Hann getur eftir atvikum lagt kannanir fyrir nemendur og rætt við nemendur einstaklingslega til að fá skýra mynd af því sem er í gangi.
 • Hann ræðir síðan við gerendur í einelti með það að leiðarljósi að stöðva eineltið og fylgist í framhaldi af því með framvindu máls.
 • Hann ræðir við þolanda með það að leiðarljósi að styðja þolanda og upplýsa hann um hvaða aðgerðir verða notaðar í viðkomandi máli.
 • Umsjónarkennari hefur samband við foreldra gerenda og þolenda ef upp koma alvarleg eineltismál og einnig ef illa gengur að stöðva einelti á byrjunarstigi.
 • Umsjónarkennari skráir hjá sér þær aðgerðir sem gripið er til.
 • Umsjónarkennari gefur öllum starfsmönnum upplýsingar um mál sem þarf að fylgjast með, til að tryggja sem best öryggi barnanna og að samskipti séu í lagi.
 •  Unnið er með alvarleg eineltismál í samstarfi við nemendaverndarráð skólans.